Veður var með besta móti þegar jólin voru kvödd á þrettándagleði Vestmannaeyinga í gærkvöldi. Álfar, vættir og verur komu úr felum til að fagna með bæjarbúum, skemmta og hrella. Jólasveinarnir fjölmenntu á samkomuna að sjálfsögðu, allir þrettán bræðurnir ásamt foreldrum sínum, Grýlu og Leppalúða. Kveikt var í miklum bálkesti á malarvellinum og flugeldar sprengdir.