Ég hef alla tíð haft ánægju af bóklestri og gjarnan verið með bók eða bækur innan seilingar til að glugga í þegar tími gefst til. Í æsku skemmti ég mér yfir sígildum teiknimyndasögum en einnig alvarlegri bókum eins og Frank og Jóa og slíku. Síðustu ár hef ég jafnan nokkrar bækur á náttborðinu og tek gjarnan törn á sumum höfundum.
Nýverið lagðist ég yfir bækur Vilborgar Davíðsdóttur um Auði djúpúðgu og hennar föruneyti og landnámsbrölt á Vesturlandi og mæli ég sterklega með þeim fyrir þá sem hafa áhuga á sögulegum skáldskap. Ég hef einnig gaman af Jóni Kalmani og sökkti mér í þríleik hans með sögusvið á Vestfjörðum fyrir nokkru og nú bíður mín nýjasta saga hans um Spánverjavígin, eða Himintungl yfir heimsins ystu brún. Arnaldur og Yrsa eru vanalega á kantinum um jólin, en nýjustu bók Arnaldar, Ferðalok, fékk ég í jólagjöf og er spenntur að lesa hvaða orðum Arnaldur fer um eitt af höfuðskáldunum.
...