Baldur Óskarsson fæddist 26. desember árið 1940. Hann lést 18. nóvember 2024. Útför Baldurs fór fram 27. nóvember 2024.

Eftirminnilegur vinur og félagi Baldur Óskarsson féll frá í haust. Fyrst minnist ég Baldurs þá hann kom með föður sínum Óskari Jónssyni í Vík upp að Brúnastöðum. Baldri kynntist ég síðar er hann var formaður Sambands ungra framsóknarmanna. Með honum var breiðfylking ungs fólks, þar á meðal Ólafur Ragnar Grímsson, og hópur ungra manna og kvenna sem urðu þjóðfrægt fólk. SUF var öflugasta hreyfing ungs fólks á þessum árum, markaði sér sókndjarfa stefnu og það fór mikið fyrir þessu unga fólki. Framsóknarflokkurinn var stórveldi með um og yfir 30% fylgi. Baldur var menntaður í samvinnufræðum frá Bifröst, sem þá var magnaður skóli til að búa út forystufólk. Baldur lærði til kaupfélagsstjóra og varð erindreki og fór á milli kaupfélaganna og margar sögur sagði hann mér frá

...