Valgerður Auður Elíasdóttir fæddist í Reykjavík 24. júlí 1928. Hún lést á Landspítalanum 19. desember 2024. Foreldrar hennar voru hjónin Steinunn Auðunsdóttir f. 24. mars 1902, d. 29. júní 1991 og Elías Högnason, verkstjóri, f. 20. okt. 1894, d. 11. nóv. 1936. Börn þeirra eru: Ragnhildur f. 22. nóv. 1923, d. 24. maí 2000; Jón f. 18. mars 1925, d. 15. apríl 1925; Jón f. 10. maí 1926, d. 13. júní 2022; Guðrún f. 25. júní 1930; Höskuldur f. 25. júní 1930, d. 9. ágúst 2023 og Hilmar f. 5. nóv. 1931, d. 21.
mars 2018.
Valgerður giftist 27. mars 1948 Sigurði Pétri Þorleifssyni, kaupmanni, f. 22. mars 1927, d. 19. júlí 2012. Foreldrar hans voru Þorleifur Þorleifsson, ljósmyndari, f. 11.07.1882, d. 3.04.1941 og Elín Sigurðardóttir f. 24.6. 1891, d. 4.3. 1985. Börn Valgerðar og Sigurðar eru: 1) Þorleifur,
húsasmíðameistari, f. 18.12. 1947. Seinni kona hans er Brynja Dagbjartsdóttir, fv. skólaritari, f. 25.9. 1954. Sonur þeirra er Þorleifur f. 1979. Þorleifur var áður kvæntur Valgerði Gunnarsdóttur f.
16.7. 1949. Dætur þeirra eru Agnes Elsa f. 1967 og Steinunn f. 1971. Sonur Brynju og stjúpsonur Þorleifs er Dagbjartur Finnsson f. 1972. Barnabörn og barnabarnabörn þeirra eru alls 17. 2) Hjalti, rafvirkjameistari, f. 16.4. 1950, d. 4.9. 2022. Eftirlifandi eiginkona Hjalta er Þórey Dögg Pálmadóttir,
sjúkraliði, f. 16.2. 1956. Synir þeirra eru: Sigurður Pétur f. 1977, Þórhallur f. 1980 og Kristinn Bjarki f. 1983. Barnabörn þeirra eru alls sjö. 3) Margrét, leikskólakennari, f. 18.3. 1957, gift Þórði Jónssyni, viðskiptafræðingi, f. 20.8. 1957. Börn þeirra eru: Svandís Sif f. 1978, Þórdís Vala f. 1984 og Þröstur
Ingi f. 1991. Barnabörn þeirra eru alls sex. 4) Sigurður, verkfræðingur, f. 18.5. 1958. Kona hans er Guðrún Björk Reykdal, félagsráðgjafi, f. 11.8. 1957. Synir þeirra eru: Þórarinn f. 1983, Auðunn f. 1991 og Alexander f. 1994. Þau eiga eitt barnabarn.
Valgerður ólst upp í sex systkina hópi á Óðinsgötunni. Hún var aðeins átta ára þegar faðir hennar lést eftir stutt veikindi. Eftir stóð móðirin, Steinunn Auðunsdóttir með stóran barnahóp sem þurfti að sjá
fyrir. Barnung fór Valgerður, eins og önnur systkini hennar, í sveit hjá frændfólki sínu í Landbroti og undir Eyjafjöllum þar sem þau gegndu hinum ýmsu sveitastörfum. Þau urðu því snemma matvinnungar og fóru
snemma að leggja til heimilisins. Valgerður gekk í Húsmæðraskólann í Reykjavík. Áður hafði stundað ýmis verslunarstörf. Síðar vann hún fyrir sér með saumaskap, m.a. hjá Ceres og síðar Belgjagerðinni. Hún

kynntist ung Sigurði P. Þorleifssyni og gengu þau í hjónaband 27. mars 1948. Þau bjuggu sér heimili fyrst á Mánagötu og síðar á Lokastíg. Árið 1971 fluttu þau síðan í Melgerði 17. Árið 1974 tóku þau við rekstri ljósmyndavöruverslunarinnar Amatör Laugavegi 55 við fráfall bróður Sigurðar, Þorleifs Þorleifssonar. Valgerður tók virkan þátt í rekstrinum sem gekk vel. Börn þeirra Valgerðar og Sigurðar tóku virkan þátt í uppbyggingu
og rekstri Amatör. Eftir um 20 ára rekstur ákváðu þau að setjast í helgan stein og seldu reksturinn á Amatör 1992. Þau höfðu komið sér upp vin í Vallarhjáleigu þar sem þau dvöldu löngum við trjárækt, hestamennsku og alls kyns dútl. Síðar eignuðust þau athvarf í Flórída þar sem þau eyddu
vetrarmánuðum. Eftir fráfall Sigurðar 2012 flutti Valgerður að Dalbraut 20. Valgerður var lengst af heilsuhraust en síðustu árin var líkaminn farinn að gefa sig.
Fráfall sonar hennar, Hjalta, árið 2022 var henni mikið áfall og má segja að hún hafi ekki borið sitt barr eftir það.

Útförin fer fram frá Háteigskirkju í dag, 6. janúar 2025, kl. 13.

Elsku amma,

Amma í Melgerði.

Amma var íslensk kjarnakona og dugnaðarforkur, hún var hestakona og elskaði að fara á bak honum Ljóma. Við barnabörnin fengum oft að koma með í hesthúsið að sinna hestunum og á kaffistofunni var lika alltaf til gott kex.

Amma var með græna fingur og átti fallegan garð í húsinu þeirra við Melgerði 17 i Reykjavik. Þar voru alltaf yfirfullir pottar og beð af sumarblómum og gott var að borða moldugar gulrætur beint úr beðinu og fá að smakka fersku jarðarberin hennar og hver man ekki eftir stórum kerjum stútfullum af Hádegisblómum við innganginn á öllum heimilum sem þau bjuggu.

Amma í Vallarhjáleigu.

Vallarhjáleiga, eða bara Sveitin eins og hún er alltaf kölluð átti stóran sess í huga ömmu. Sveitin var svolítið hennar griðastaður. Þar elskaði hún að planta trjám og ræktaði heilu skógana, mokaði skít undan hestunum og nýtti i trjáræktina og var svo með allskyns ráð til að ræktin gengi sem best og sagði svo af æðruleysi já það lifir sem ekki deyr ef eitthvað af plöntunum voru lélegar. Við fórum mikið þangað sem börn og síðar með okkar eigin börn, þar var gott að vera því í sveitinni mátti, eða átti maður helst að vera alltaf svolítið skítugur og í gömlum druslufötum. Amma var líka með nokkrar hænur i sveitinni og þær voru nú ekki slæmar pönnukökurnar þar sem ríflegt var af eggjum i deginu.

Hún var afbragðs bakari og það var alltaf til nóg af jólaköku og hennar frægu hveitikökum sem hún bakaði af mikilli list, og skipti þá miklu að degið væri snarpheitt svo varla var hægt að snerta það til að fletja það út.

Amma var með yfirburðum snyrtileg og var alltaf að taka til og þrífa, húsið hennar og hlutir voru iðulega glansandi af hreinlæti og varla var búið að drekka úr kaffibollanum þegar hún var búin að þvo hann.

Amma i Amatör.

Amma og afi voru dugleg að ferðast, að stórum hluta tengdust ferðirnar innkaupum og sýningum fyrir Amatör, ljósmyndavöruversluninni sem þau áttu en i þessum ferðum fyllti amma ferðatöskurnar af gjöfum, fötum og nammi. Svo átti maður að mæta þegar þau komu heim og máta föt, og það sem passaði ekki á einn, passaði á næsta. Maður fékk sko Levis buxur á undan öllum.

Á unglingsárum okkar systra unnum við i Amatör, það var alltaf nóg að gera og við lærðum að vinna, þegar ekki voru viðskiptavinir var fyllt á vörur og þurrkað af og svo tókum við þátt i framköllununni. Það var gott að hefja starfsævina i öruggu umhverfi hjá ömmu og afa.

Amma á hverfisgötu. Amma á Egilsgötu.

Amma og afi seldu húsið við Melgerði þegar þau festu kaup á húsinu sem hýsti svo Amatör. Á laugavegi 82. Þá fluttu þau á hverfisgötuna og bjuggu þar i nokkur ár. Ömmu þótti mjög þægilegt að geta bara labbað á milli og mætti þá stundum aðeins á eftir afa i vinnuna þegar rólegt var. Svo keyptu þau Egilsgötuna og bjuggu þar þangað til stuttu eftir að afi lést. Amma bjó svo síðustu árin sín á Dalbraut í íbúð með aðgangi að þjónustu. Þar fór vel um hana og henni leið vel, örstutt i sundlaugina og hún stundaði félagsstarfið og svo hafði hún reyndar aðgang þar að mötuneyti sem hún notaði að visu frekar lítið því hún sagðist alltaf vera svo mikill gikkur að það væri erfitt að elda fyrir hana. Það væri oft svolítið erfitt að vera matvönd.

Amma tók aldrei bílpróf, hún gekk mikið og notaði strætó, strætókerfið kunni hún utanað og notaði mikið og einnig í Flórída þar sem þau bjuggu hluta árs á efri árum sínum. Hún flakkaði um Orlando i strætó því afi nennti nú ekkert alltaf að skutla henni í búðir því amma elskaði að fara í búðir og afi sótti hana í lok dags. Amma naut sín mjög í sólinni í Flórída og stundaði sólböð og synti og var alltaf sólbrún og sæt.

Amma sem var mikill snyrtipinni hugsaði alltaf vel um sig, hún hvorki reykti né drakk, gekk mikið og synti og gerði heimaæfingar. Hún átti fín föt og þótti gaman að punta sig. Fór reglulega í lagningu og notaði auðvitað dýrustu og flottustu andlitskremin og passaði að afi kæmist nú ekki að því hvað þau kostuðu.

Amma var líka handlagin, átti fina saumavél og saumaði mikið á yngri árum, saumaði til dæmis handa okkur barnaföt, smekki og rúmföt og kenndi okkur svo að sauma þegar við urðum eldri.

Amma var róleg og fróð og hafði gaman að segja frá og miðla til okkar og allt fram á síðasta dag var hún með allt á hreinu og mjög skýr í kollinum orðin 96 ára gömul. Hún sagði okkur frá löngu liðnum atburðum og spurði frétta af okkur og langömmu börnunum sínum, hún þekkti alla og mundi hvert smáatriði. Það var lika stutt í húmorinn.

Hún var líka raunsæ og sagði fyrir nokkrum árum oft að hún færi alltaf rólega, ef síminn hringdi gæti hringjandinn bara beðið meðan hún stæði upp, því hún vildi ekki detta og meiðast, því ef hún meiddist illa væri lífið nánast búið og hún kæmist ekki heim aftur.

Amma lifði góðu lífi á efri árum sínum og var nokkuð heilsuhraust en hún var oft þreytt á að heyra illa. Hún bar aldurinn vel og var alltaf glæsileg kona.

þegar þegar við heimsóttum hana undir lokin vissi hún auðvitað í hvað stefndi, sagðist vera orðin þreytt og sagði við okkur, Allt tekur enda, þetta er komið gott.

Elsku Amma okkar, það er rétt að allt tekur enda og þessi fáu kveðjuorð til þín eru bara dropi i hafið af mörgum fallegum minningum sem við getum deilt um þig með öðrum.

Góða ferð elsku amma í sumarlandið þar sem Siggi afi og Hjalti frændi bíða þín eflaust með Ljóma i taumi, stórt beð til að gróðursetja í og hlýja sundlaug til að njóta sólarinnar við.

Minningin þín lifir.







Steinunn, Agnes, Dagbjartur og Þorleifur.