Þýska félagið Borussia Dortmund hefur bæst í hóp þeirra félaga sem sögð eru hafa áhuga á að fá enska kantmanninn Marcus Rashford í sínar raðir. Ljóst virðist að Rashford sé á förum frá Manchester United, annaðhvort í láni út þetta tímabil eða þá að hann verði seldur. The Athletic segir að Dortmund sé að velta fyrir sér möguleikanum á að fá Rashford lánaðan til vorsins en enn fremur séu AC Milan, Juventus og nokkur lið í ensku úrvalsdeildinni á svipuðum nótum.

Þrír knattspyrnustjórar mættu í atvinnuviðtal hjá enska úrvalsdeildarfélaginu West Ham í gær en félagið mun að öllum líkindum reka Spánverjann Julen Lopetegui í vikunni. Sky greinir frá því að Englendingurinn Graham Potter, Portúgalinn Paulo Fonseca og Frakkinn Christoph Galtier hafi allir mætt í viðtal hjá félaginu í gær.

...