Heimsókn Donalds Trumps yngri til Grænlands í gær hefur valdið titringi í Danaveldi. Ástæðan er sú að faðir hans og verðandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, sagði rétt fyrir jól að „í þágu þjóðaröryggis og frelsis um allan heim finnst Bandaríkjunum að eign og stjórn á Grænlandi sé alger nauðsyn“.
Trump yngri sagði reyndar að hann yrði í einkaerindum, hann væri á leið til Nuuk, en ekki til að „kaupa Grænland“.
Faðir hans fór hins vegar ekki í grafgötur með hvað hann vildi þegar hann fjallaði um heimsókn sonar síns á samfélagsmiðli sínum, Truth Social: „Grænland er ótrúlegur staður og fólkinu mun verða gríðarlegur akkur af því ef, og þegar, það verður hluti af okkar þjóð. Við munum vernda það, og sýna umhyggju, fyrir mjög grimmum umheimi. GERUM GRÆNLAND STÓRKOSTLEGT Á NÝ!“
...