Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Anne Hidalgo, borgarstjóri í París, voru á meðal þeirra sem tóku þátt í sérstakri minningarathöfn í gær um árásir íslamskra öfgamanna á skopmyndatímaritið Charlie Hebdo 7. janúar 2015 og á stórmarkaðinn Hypercacher tveimur dögum síðar, en alls létust 16 manns í árásunum tveimur.
Frederica Wolinksi, dóttir teiknarans Georges Wolinskis sem lést í árásinni, sagði að dagurinn væri ekki endilega sorgardagur, þar sem þeir sem létust þá lifðu enn í góðri minningu.
Bruno Retailleau innanríkisráðherra sagði í gær að Frakkar hefðu brugðist vel við hryðjuverkaógninni síðan þá en enn væri hætta á ferðum. Sagði Retailleau að franskar öryggisþjónustur hefðu komið í veg fyrir níu hryðjuverk á síðasta ári, og væri það hið mesta frá árinu 2017.