40 ára María ólst upp í Seljahverfinu í Breiðholti en svo var fjölskyldan mikið í Haga á Barðaströnd þar sem afi hennar og amma bjuggu.

María útskrifaðist með BS-gráðu í sjúkraþjálfun frá HÍ árið 2013. „Ég byrjaði síðan að vinna á Landspítalanum, á lungnadeild, taugadeild og göngudeild. Er þar í þrjú ár. Svo flytjum við fjölskyldan til Nantes í Frakklandi þar sem maðurinn minn var að læra róbótaverkfræði og erum þar í tvö ár. Frakkland er æðislegt land og þetta er eitthvað sem mig langar til að gera aftur. “

Þegar heim var komið fór María að vinna í Styrk sjúkraþjálfun. „Svo ákváðum við að eiga örverpið okkar þannig að ég tek mér pásu frá stofuvinnu og er með dótturinni í nítján mánuði og fer svo yfir í heimasjúkraþjálfun og starfa við það í dag.“

...