Erla Sigurjónsdóttir fæddist í Reykjavík 11. júlí 1931 og var þriðja í röð ellefu barna. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar á Hrafnistu í Hafnarfirði 26. desember 2024.
Foreldrar hennar voru Guðmundína Halldóra Sigurlaug Sveinsdóttir, fædd 22. ágúst 1903 í Ólafsvík, lést 31. desember 1996, og Sigurjón Jónsson, fæddur 29. maí 1904 í Reykjavík, lést 27. maí 1985.
Erla ólst upp í stórum og samheldnum systkinahópi. Systkini hennar voru: Sigurlaug, f. 15. apríl 1929, Sigurbjörn, f. 22. maí 1930, d. 14. nóvember 2010, Haukur, f. 12. júlí 1931, tvíburabróðir Erlu, Marinó, f. 20. október 1932, d. 24. ágúst 2021, Áslaug Gréta, f. 7. nóvember 1934, d. 30. október 2020, Sóley, f. 27. apríl 1938, Sigrún, f. 27. mars 1940, d. 18. maí 1990, Victor, f. 20. janúar 1945, d. 29. apríl 2006, Gunnar, f. 16. desember 1946, Ingibjörg, f. 31. október 1949.
Erla giftist lífsförunauti sínum, Helga Jónassyni, f. 16. mars 1931, d. 12. ágúst 2020, þann 16. mars 1956. Þau áttu saman farsælt hjónaband og eignuðust tvær dætur:
1) Guðbjörg, f. 3. nóvember 1956, gift Einari Oddi Garðarssyni, f. 8. apríl 1946. Börn þeirra eru: a) Dennis Helgi, f. 6. júní 1976, b) Stefanía, f. 20. júlí 1981, sem á börnin Elísabetu Líf, f. 11. apríl 2005 og Kristófer Nökkva, f. 1. mars 2010.
2) Kristín, f. 12. apríl 1967, gift John Daniel Binnie, f. 20. september 1962. Fyrri eiginmaður Kristínar er Elmar Gíslason, f. 8. desember 1968. Börn Kristínar eru: a) Andrea Björk, f. 27. maí 1994, sem á soninn Júlíus, f. 11. febrúar 2020. b) Arnar Helgi, f. 12. janúar 1999, unnusta hans er Diana Nava Novelo, f. 19. nóvember 1998, og eiga þau soninn Leif Mateo, f. 21. september 2022.
Erla var fjölskyldurækin kona sem umvafði ást og umhyggju. Hún ólst upp í Selási, þá í Mosfellssveit, á þriggja hektara landareign með foreldrum og systkinum. Skólagangan hófst 1941 í Brúarlandsskóla, þar sem hún gekk tveggja tíma leið í skólann með systkinum sínum. Erla og tvíburabróðir hennar Haukur fóru í fóstur til Kristínar og Þorsteins á Gullberastöðum, sem reyndust þeim sem bestu foreldrar. Erla giftist Helga Jónassyni og áttu þau ástríkt 64 ára hjónaband. Hún sinnti fjölskyldu sinni af alúð.
Útför hennar fer fram frá Vídalínskirkju í dag, 10. janúar 2025, kl. 13.
Elsku mamma mín hefur kvatt þessa jörð. Ég á ótrúlega margar og góðar minningar af henni, hún var mjög fjölskyldurækin kona og umvafði sína ást og umhyggju. Mamma var sérlega tengd systkinum sínum og þau voru einstaklega samheldin. Hún ólst upp í Reykjavík fyrstu árin en mamma og tvíburabróðir hennar Haukur fóru í fóstur á Gullberastaði í Lundarreykjadal, til Kristínar Vigfúsdóttur og Þorsteins Kristleifssonar. Þau hjónin reyndust mömmu og Hauki sem bestu foreldrar og hélst alltaf mikið samband við þau og skírði mamma mig í höfuðið á sinni góðu fóstru.
Amma og afi festu kaup á þriggja hektara landareign í Selási sem þá var í Mosfellssveit en er nú í Árbæjarhverfinu í Reykjavík. Þar var lítið íbúðarhús og stórt hús fyrir skepnur. Þau áttu nokkrar kýr, hænsn, endur og einn hest. Á sumrin kom sumarbústaðafólkið til þeirra og keypti mjólk og egg.
Mamma hóf skólagöngu sína 1941 í Brúarlandsskóla sem stendur rétt við Varmá. Kennari mömmu var Klara Klængsdóttir, sem mamma minntist með hlýhug, yndisleg manneskja sem kenndi börnunum bóklegar og verklegar greinar og var með nemendum í frímínútum og kenndi þeim sund og leiki. Það var engin skólabíll í skólann og því aðalvandamál mömmu og systkina hennar að komast í skólann. Það var áætlunarbíll frá Reykjavík en hann lagði ekki af stað fyrr en klukkan átta en þá áttu nemendur að vera mættir í skólann. Þau systkinin gengu því í skólann en það var tveggja tíma gangur í góðu færi og þau gengu yfir ásinn niður að Grafarholti og með hitaveitustokknum alla leið að Brúarlandi. Þetta var góð gönguleið því hitaveitustokkurinn var sléttur og oftast snjólaus. Leiðin var óupplýst og nánast engin umferð við veginn. Þau þurftu því að vakna klukkan hálfsex í síðasta lagi og borða hafragraut og vera tilbúin að leggja af stað í skólann klukkan sex. Í vondu veðri urðu þau oft illa blaut og þurfti að þurrka af þeim fötin í skólanum. Skólanum lauk klukkan þrjú og þá þurftu þau að ganga aftur til baka og þá urðu fötin oft blaut á leiðinni og þurfti að þurrka þau að nýju. Þau systkin áttu ekki mikið af fötum þar sem þetta var á stríðsárunum og allt var skammtað. Það var því ekki mikið til af hlífðarfötum fyrir börn og amma og afi voru með lítið á milli handanna.
Mamma og systkini hennar byrjuðu snemma að vinna fyrir sér og mamma fór
að vinna á Keflavíkurflugvelli þar sem hún kynntist góðum vinum eins og
bestu vinkonu sinni Böggí sem hún ferðaðist með til Englands og Frakklands
og þar kynntist hún pabba. Mamma og pabbi áttu ástríkt og gott hjónaband
sem stóð í 64 ár þar til pabbi lést 2020.
Við mamma gerðum ótrúlega margt saman, mínar fyrstu minningar eru af því að
fara í strætó til Reykjavíkur með mömmu að fá okkur vöfflu í
Hressingarskálanum og fara á listasöfn, ég man sérstaklega eftir að farið á
Errósýningu með mömmu sem var ekki sérstaklega barnvæn. Þetta var áður en
mamma fékk bílprófið en hún var 48 ára þegar hún tók það og pabbi keypti
handa henni bílinn Bergþóru, sem var skírður eftir fyrri eiganda bílsins,
Bergþóru lækni. Þetta var 8 cl Dodge Dart og mamma keyrði mjög hratt og ég
skemmti mér vel (að sjálfsögðu ekki í bílbelti) þar sem það var ekki til
siðs þá.
Mamma var heimavinnandi þegar ég ólst upp, hún spilaði mikið við mig og lagði kapla. Hún eldaði alltaf matinn fyrir okkur, kjöt í karríi, kjötsúpu en oftast var fiskur. Það var yfirleitt hryggur eða læri í hádeginu á sunnudögum og hlustað á messu. Ef mamma fór í heimsókn til Böggíar vinkonu sinnar eða Bjössa bróður síns í Ameríku þá fórum við pabbi út að borða.
Við mamma fórum saman til Ameríku og vorum þar heilt sumar og áttum dásamlega tíma á meðan pabbi var að byggja húsið okkar í Garðabænum. Við ferðuðumst mikið saman, sérstaklega til útlanda, mamma bjó næstum hjá okkur þegar við bjuggum í Kaupmannahöfn með Andreu litla. Mamma var algjör súperamma og elskaði börnin mín Andreu Björk og Arnar Helga mikið og þau hana. Hún og pabbi gerðu flest með okkur, hvort sem það var að fara á hótel innanlands eða í ferðir til útlanda. Ég fór til þeirra eða þau komu til mín á hverjum degi og við áttum dagleg símtöl stundum oft á dag.
Ég er þakklát fyrir að hafa fengið þessa frábæru mömmu sem reyndist mér svo vel og ég fann alltaf hvað ég var elskuð af henni.
Takk elsku mamma fyrir allt.
Kristín.