Það er þess virði að setja sig inn í málefni Bandaríkjanna, eftir getu, en þó alveg sérstaklega þegar þeir eru í kosningaham, sem stendur stundum í nokkur ár í senn, og þótt dálítið sé ýkt er það þó ekki fjarri lagi. Ísland er um fátt líkt Bandaríkjunum, en á það þó að mestu sameiginlegt með risaveldinu, að bæði ríkin mega teljast vera lýðræðisríki, og er raunar fremur fámennur hópur. Þau falla flest inn í ríkjahóp í Evrópu og Norður-Ameríku, og jafnvel á þeim slóðum vantar stundum upp á það, að öll ríki innan þessara marka standist þær kröfur svo vel, að hvergi séu falleinkunnir í bland við það sem sæmilegast er.
Helstu valdamenn á fyrrnefndum slóðum eru misjafnlega styrkir í sessi. Forsætisráðherrar í „grónum og þroskuðum“ lýðræðisríkjum, til að mynda í Evrópu, hafa töluvert pólitískt vald tengt nafni sínu og stöðu og haldi þeir jákvæðu mati hinna
...