Donald Trump talar um önnur lönd eins og þau séu fasteignir. Undanfarið hafa Kanada, Panama og Grænland verið í sigtinu, það sé nauðsynlegt að Bandaríkin eigi Grænland.
Orð verðandi forseta Bandaríkjanna hljóma eins og endurvakin nýlendustefna þótt margir kjósi að nota frekar orð eins og samningatækni yfir ágengni hans. Viðbrögðin hafa verið nokkuð eindregin, en þó var Mette Frederiksen ekki jafn hvöss og þegar Trump lýsti yfir áhuga sínum á Grænlandi þegar hann var forseti síðast.
Þá svaraði hún honum tæpitungulaust, en nú var hún diplómatískari, kvaðst fagna áhuga hans, en framtíð Grænlands yrði ráðin í Nuuk.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra sögðu í gær í viðtali við mbl.is að framtíð Grænlands væri í höndum Grænlendinga.
...