Minnst sextán hafa látið lífið vegna gróðureldanna í Los Angeles sem geisað hafa í sex daga. Þúsundir hafa misst heimili sín í eldhafinu sem hefur gleypt heilu hverfin og skilið eftir sig gríðarlegt tjón, sem talið er það mesta af völdum gróðurelda í Bandaríkjunum til þessa.
Slökkviliðsmenn búa sig undir sterka vinda sem spáð er næstu daga en óttast er að þeir muni hreyfa við gömlum glæðum og jafnvel kveikja elda á nýjum svæðum. Anthony Marrone, slökkviliðsstjóri Los Angeles, segir að deildinni hafi borist liðsauki auk fjölda slökkviliðsbíla. Kveðst hann reiðubúinn að takast á við nýjar áskoranir. „Ég trúi því að borgin sé tilbúin,“ segir Karen Bass, borgarstjóri Los Angeles, spurð hvort sú staða gæti aftur komið upp að vatnið sem streymir í vatnshana borgarinnar klárist, eins og gerðist þegar eldurinn hafði nýlega brotist út. » 13