Daníel Bjarnason stjórnar slagverkskonsert sínum, Inferno, á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborg Hörpu fimmtudaginn 16. janúar kl. 19.30. „Slagsverkskonsertinn var pantaður af Sinfóníuhljómsveitinni í Gautaborg en verkið var frumflutt í Helsinki 2022. Einleikari kvöldsins er slagverksstjarnan Vivi Vassileva sem hefur sérhæft sig í flutningi samtímatónlistar og kemur fram sem einleikari með helstu hljómsveitum víða um heim,“ segir í viðburðarkynningu. Á efnisskránni er einnig Fragile Hope eftir Daníel, sem frumflutt var af Sinfóníuhljómsveitinni í Gautaborg 2024 og helgað minningu Jóhanns Jóhannssonar tónskálds sem lést 2018. Lokaverk tónleikanna er Francesca da Rimini eftir Pjotr Tsjajkovskíj. Að vanda hefst tónleikakynning í Hörpuhorni kl. 18 á tónleikadag.