Eftir því sem Rússum verður gert erfiðara fyrir að valda usla í Eystrasalti verður líklegra að þeir leiti veikra bletta annars staðar

Eftirlit verður hert á Eystrasalti á næstunni undir merkjum Atlantshafsbandalagsins. Ástæðan er sú að undanfarna mánuði hafa sæstrengir og leiðslur á botni Eystrasaltsins farið í sundur og er sterkur grunur um skemmdarverk, sem runnin séu undan rifjum Rússa.

Mark Rutte framkvæmdastjóri NATO greindi frá þessu á fundi í Helsinki í gær, sagði að um sérstaka aðgerð væri að ræða og yrðu kallaðar til freigátur, þyrlur og flugvélar auk þess sem bætt yrði í annan viðbúnað. Ekki hefði verið ákveðið hversu lengi þessi aðgerð myndi standa.

Talað er um „skuggaflota“ Rússa, oft gömul skip með óljóst eignarhald, sem sigli með hráolíu og unnar olíuafurðir undir hentifánum og séu notuð til að vinna skemmdir á strengjum og leiðslum neðansjávar.

Alexander Stubb forseti Finnlands sagði að utanríkisráðuneyti Atlantshafsbandalagsríkja við Eystrasaltið hefðu sett á fót hóp sérfræðinga í lögum til að meta hvað hægt væri að gera án þess að þrengja að frelsi til siglinga

...