Það er við hæfi að fyrsta opinbera ræða mín sem atvinnuvegaráðherra í nýrri ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins var við opnun ferðaþjónustuvikunnar 2025. Með breytingum á skiptingu starfa ráðherra sem fylgdu stjórnarskiptunum voru málefni ferðaþjónustunnar færð undir nýtt atvinnuvegaráðuneyti með öðrum grunnatvinnuvegum þjóðarinnar.
Það hefur verið ævintýralegt að fylgjast með vexti og þróun ferðaþjónustunnar, sem hefur á fáum árum vaxið úr nánast engu yfir í að vera stærsta útflutningsgrein landsins. Síðustu misseri hefur verðbólga og hátt vaxtastig þó haft óhagstæð áhrif og ógnað verðsamkeppnishæfni Íslands. Forgangsmál nýrrar ríkisstjórnar er að ná niður verðbólgu og stuðla þannig að lækkun vaxta. Það er fátt sem skiptir íslensk fyrirtæki meira máli.
Það er full ástæða til bjartsýni fyrir árið fram undan en efnahagshorfur fara batnandi
...