Hróflað hefur verið við dagsetningum í aðdraganda Óskarsverðlaunanna í annað sinn vegna hinna miklu elda sem geisa enn í Los Angeles í Bandaríkjunum, þar sem verðlaunahátíðin fer fram á ári hverju.
Miðillinn The Hollywood Reporter greinir frá því að nú hafi meðlimir bandarísku kvikmyndaakademíunnar frest til 17. janúar til að greiða atkvæði um tilnefningarnar en upphaflega dagsetningin var 12. janúar. Þá verða tilnefningarnar kynntar 23. janúar en upphaflega hafði staðið til að gera þær heyrinkunnugar 17. janúar. Ekki hefur enn verið tilkynnt að verðlaunahátíðinni sjálfri verði frestað en hún á að fara fram 2. mars. Þess er getið í fréttinni að fjórir stjórnarmenn í kvikmyndaakademíunni og fyrrverandi framkvæmdastjóri hennar hafi misst heimili sín í eldunum.