Samsýning ljósmyndaranna Hrafns Hólmfríðarsonar og Þórsteins Svanhildarsonar, sem ber heitið Sitt hvorum megin við sama borð, verður opnuð á laugardaginn, 18. janúar, kl. 16 í Gallery Porti
Samsýning ljósmyndaranna Hrafns Hólmfríðarsonar og Þórsteins Svanhildarsonar, sem ber heitið Sitt hvorum megin við sama borð, verður opnuð á laugardaginn, 18. janúar, kl. 16 í Gallery Porti. Segir í tilkynningu að ljósmyndararnir tveir eigi það sameiginlegt að lifa í návígi við fötlun en þó á ólíkan hátt. Þórsteinn veitir umönnun á meðan Hrafn þiggur hana en hann fékk heilablæðingu á heilastofn árið 2009 og er líkamlega fatlaður í kjölfar áfallsins. Þórsteinn eignaðist dóttur sína Sól sumarið 2021 en hún fæddist með afar sjaldgæft heilkenni, Rubinstein Taybi, sem veldur þroskahömlun og líkamlegri fötlun. Þá mun myndlistarmaðurinn Rúrí opna sýninguna sem stendur til 1. febrúar og er hluti af Ljósmyndahátíð Íslands.