Ný rannsókn sýnir að endurnotkun á Íslandi var 19,93 kíló á íbúa árið 2023. Dæmi um endurnotkun er þegar notaðar vörur eru seldar í netsölu, sölutorgum á samfélagsmiðlum, nytjamörkuðum eða afhentar gefins á milli fólks. Er endurnotkun skilgreind sem hvers kyns aðgerð þar sem vörur eða íhlutir, sem ekki eru úrgangur, eru notuð í sama tilgangi og þau voru ætluð til í upphafi.
Kemur þetta fram í tilkynningu frá Umhverfisstofnun.
„Heildarendurnotkun á Íslandi var 19,93 kg/mann árið 2023. Húsgögn voru stærstur hluti af endurnotkun (40%), næst byggingarefni (29%), raf- og rafeindatæki (14%), vefnaðarvara (3%) og annað (14%), miðað við þyngd,“ segir þar, en þegar vöruflokkarnir voru skoðaðir nánar má sjá að föt voru stærsti hlutinn af endurnotkun á vefnaðarvörum. Hvað byggingarefni varðar er timbrið efst á blaði.