Hákon Arnar Haraldsson skoraði fyrra mark Lille í gærkvöld þegar lið hans vann Nice, 2:1, í toppslag í frönsku 1. deildinni í knattspyrnu. Hákon jafnaði, 1:1, á 48. mínútu eftir sendingu frá Jonathan David. Skagamaðurinn hefur þar með skorað í tveimur síðustu leikjum Lille og fjögur mörk í síðustu átta leikjum liðsins í deildinni, bikarnum og Meistaradeild Evrópu. Hann er á leið með Lille í útileik gegn Liverpool í Meistaradeildinni á þriðjudagskvöldið.