Alls söfnuðust 500 þúsund krónur á svonefndum „kósý tónleikum“ í Glerárkirkju 11. janúar sl., sem haldnir voru til styrktar Grófinni geðrækt á Akureyri. Hljómsveit Akureyrar flutti nokkur lög, auk fleiri tónlistarmanna.
Flutt var klassísk tónlist og djass, m.a. lög eins og Nessun Dorma, Ave Maria og Greensleeves.
Aðgangur að tónleikunum var ókeypis en fólk gat skilið eftir frjáls framlög. Húsfyllir var í kirkjunni, um 300 manns. Stjórnandi sveitarinnar, Michael Jón Clarke, mætti ásamt fleirum í miðstöð Grófarinnar í vikunni og afhenti Pálínu Sigrúnu Halldórsdóttur framkvæmdastjóra miðstöðvarinnar afraksturinn.