Símon Ingi Kjærnested fæddist 18. febrúar. Hann lést 9. janúar 2025.
Útförin fór fram 16. janúar 2025.
Í minningu minni var alltaf sól og sumar á Þorfinnsgötu 8 og börn að ærslast í garðinum. Á slíkum dögum voru systurnar, mamma og Magga, oftar en ekki saman úti undir húsveggnum í sólbaði og við börnin fáklædd í leik á teppinu í kringum þær. Þessir dagar voru endalausir og tíminn virtist standa í stað.
Afi hafði byggt húsið í kreppunni á fjórða áratugnum. Þá var hann vörubílstjóri og tókst með fádæma dugnaði og vinnuskiptum að koma upp þessu þriggja hæða hús með risi og kjallara. Þegar ég man fyrst eftir mér bjuggu þrjú ömmusystkini mín í risinu; afi og amma á 3. hæð, auk Dodda tvíburabróður mömmu; á miðhæð bjuggum við, mamma og pabbi með þrjú börn, en einnig Gissi frændi, með sína konu og þrjú börn;
...