Snilligáfa Davids Lynch var fyrst og fremst fólgin í einstakri sköpunargáfu en um leið óhefðbundinni nálgun á allri þeirri list sem hann tók sér fyrir hendur, því þótt hann væri aðallega heimsfægur fyrir kvikmyndagerð þá gaf hann sig að alls konar annarri list líka. Í huga Davids var jörðin alls ekki kringlótt en sannarlega ekki flöt heldur.“
Þetta segir Sigurjón Sighvatsson, kvikmyndaframleiðandi og gamall samstarfsmaður Davids Lynch og vinur til áratuga. Lynch lést í vikunni, tæplega 79 ára gamall, eftir veikindi.
Lynch hafði mjög sérstakan og auðþekkjanlegan stíl, sem gjarnan var kallaður „lynchískur“, vegna þess að hann var engum líkur, hvorki efnistök né áferð verka hans. „Það var engin leið að setja David í flokk. Hann vildi aldrei takmarka sig og festist aldrei í ákveðnum frásagnarstíl.
...