Þetta er í 14. sinn sem Eyjatónleikarnir fara fram í Eldborg í Hörpu en annar staður var aldrei inni í myndinni. „Það var enn verið að byggja Hörpu þegar ég hafði fyrst samband,“ segir Bjarni Ólafur Guðmundsson, alltaf kallaður Daddi, sem hefur haft veg og vanda af tónleikunum ásamt eiginkonu sinni, Guðrúnu Mary Ólafsdóttur.
Upphaflega stóð til að heiðra minningu Oddgeirs Kristjánssonar, hins sívinsæla lagahöfundar úr Eyjum, sem lést 1966, á einum tónleikum árið 2011. Tónleikarnir heppnuðust afar vel og voru aðstandendur óspart hvattir til að endurtaka leikinn að ári. „Fyrir utan tónlistina gerðist eitthvað ótrúlegt á þessum tónleikum enda var sumt af fólkinu sem mætti að hittast í fyrsta skipti síðan í gosinu. Þetta varð strax öðrum þræði að átthagafundi og -fagnaði. Eða eins og ég segi stundum: stærsta árganga- og
...