Þórður Snær Júlíusson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar. Hann tekur við stöðunni formlega 4. febrúar eftir að þing kemur saman en í færslu á Facebook, þar sem hann greinir frá ráðningunni, segist hann þegar hafa hafið störf.
Þórður Snær skipaði þriðja sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður í alþingiskosningunum og var kjörinn á þing. Hann ætlar þó ekki að þiggja sætið. Ástæðan er skrif fjölmiðlamannsins fyrrverandi á blogginu „Þessar elskur“ sem hann hélt úti árin 2006-2007. Fyrst var fjallað um bloggskrif Þórðar í Spursmálum á mbl.is.
Undir dulnefninu Þýska stálið skrifaði hann óviðurkvæmilegar greinar um konur sem hann sagði m.a. vera lævísar, miskunnarlausar, undirförlar tíkur. Skrifin vöktu mikla athygli og þótti mörgum réttast að hann stigi til hliðar.
...