Gestur Ólafsson
Fyrir meira en hundrað árum gerðu menningarþjóðir bæði austan hafs og vestan sér grein fyrir að það gæti verið ansi flókið að hanna byggingar og burð í þær. Enn flóknara væri samt að skipuleggja byggð svo vel væri, enda væru oft miklu viðameiri og afdrifaríkari ákvarðanir sem þar þyrfti að taka. Þessar þjóðir komu sér því upp kennslu í skipulagsfræðum þar sem meðal annars var samtímis bæði horft til félagsfræði og hagfræði, samgangna og þróunarmöguleika viðkomandi svæða í góðri sátt við íbúa og umhverfi.
Mikilvægi þessarar afstöðu virðist ekki enn hafa náð hingað til lands eins og ýmis nýleg dæmi sanna; staðarval Landspítala – háskólasjúkrahúss; vanræksla í uppbyggingu vegakerfis á höfuðborgarsvæðinu síðastliðinn áratug og tillögur um borgarlínu.