Árni Árnason kynnir rannsóknarniðurstöður sínar í fyrirlestraröðinni „Friðlýsum Laugarnes“ sem fram fer í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar í kvöld kl. 20. Árni er höfundur bókarinnar Ingólfur Arnarson: Arfleifð hans og Íslandssagan í nýju ljósi. „Þar tekur hann til rannsóknar tilgátu afa síns, sem hann var látinn heita eftir, um það að Ingólfur hafi átt höfuðból sitt í Laugarnesi og því hafi tilheyrt eyjarnar Engey og Viðey ásamt jörðunum Kleppi, Vatnsenda og Elliðavatni. Í fyrirlestri sínum mun Árni fara yfir margvíslegan fróðleik og heimildir sem styðja þessa fullyrðingu,“ segir í viðburðarkynningu. Aðgangur er ókeypis.