Breska leikkonan Joan Plowright er látin, 95 ára að aldri. „Hún átti langan og glæsilegan feril sem spannaði leikhús, kvikmyndir og sjónvarp,“ segir í tilkynningu sem fjölskylda Plowright sendi frá sér og BBC greinir frá. Þar kemur fram að Plowright hafi neyðst til að setjast í helgan stein fyrir um áratug eftir að hún missti sjónina. Farsæll ferill hennar spannar því um sextíu ár. Árið 1993 vann hún Golden Globe-verðlaun fyrir leik sinn bæði í sjónvarpsþáttunum Stalín, þar sem Robert Duvall fór með titilhlutverkið, og kvikmyndinni Enchanted April. Fyrir seinni myndina var hún einnig tilnefnd til Óskarsverðlauna. Árið 1960 var hún tilnefnd til Bafta-verðlaunanna fyrir myndina The Entertainer þar sem hún lék á móti breska leikaranum Laurence Olivier, en þau gengu í hjónaband ári síðar og voru gift til 1989 þegar hann féll frá.
...