Leikhópurinn Tónleikhúsið flytur tvær öróperur eftir Elínu Gunnlaugsdóttur í opnu rými Hörpu á 2. hæð, gegnt innganginum að Eldborg, föstudaginn 24. janúar kl. 19.15. Uppfærslurnar eru hluti af Myrkum músíkdögum í ár. Öróperurnar, sem eru við texta eftir A.A. Milne (1882-1956), nefnast Halfway Down og Busy, en A.A. Milne er hvað þekktastur fyrir sögur sínar um Bangsímon. Flytjendur eru Kristín Sveinsdóttir messósópran og Gunnlaugur Bjarnason barítón auk píanistans Matthildar Önnu Gísladóttur. Leikstjóri beggja verka er Bergdís Júlía Jóhannsdóttir og um leikmynd og búninga sér Eva Bjarnadóttir. Aðgangur er ókeypis.