Steinunn Jóhannesdóttir
Komdu með mér, lesandi góður, í göngu eftir stígnum á Laugarnestanga og við augum blasir magnaðasta útsýni sem nokkur höfuðborg getur haft upp á að bjóða. Það er ekki bara tilkomumikið og fagurt með Esjuna sem eilífan bakgrunn Viðeyjar við Sundin blá, það er líka sem opin bók inn í Söguna með stórum staf, Söguna um upphaf Reykjavíkur sem höfuðstaðar í stóru en fámennu landi. Og opnan sem okkur býðst að lesa fjallar um miðbik 18. aldar þegar hafin var bygging Viðeyjarstofu sem lokið var við að reisa 1754. Í framhaldinu kom Viðeyjarkirkja. Viðeyjarstofa og kirkjan eru elstu byggingar sem varðveist hafa á landinu, fyrstu húsin sem eru hlaðin úr tilhöggnum steini. Og þau blasa við allra augum af stígnum og víðar úr Laugarnesi, tvö stílfögur hús í grösugu skarði milli klettaborga sem skapa svipmikinn ramma um mynd sem ekki verður metin til fjár. Hjartað í Viðey. Viðeyjarstofa
...