Takist íslenska liðinu að vinna milliriðilinn á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla mætir það nær örugglega Ungverjum í átta liða úrslitum í Zagreb á þriðjudagskvöldið.
Lendi liðið í öðru sæti riðilsins er ljóst að Frakkland verður mótherjinn. Þetta komst á hreint í gær þegar Frakkar tryggðu sér efsta sætið í milliriðli tvö með öruggum sigri á Hollendingum, 35:28, og Ungverjar lögðu Austurríkismenn að velli, 29:26.
Ungverjum nægir að vinna Katar í lokaumferð riðilsins á morgun til að ná öðru sætinu en Katar hefur tapað öllum leikjum sínum til þessa.
Danir eru búnir að vinna milliriðil eitt eftir stórsigur á Sviss, 39:28, og Þjóðverjar, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, enda í öðru sæti en þeir unnu Ítali 34:27.
Mótherjar Dana og Þjóðverja koma úr þriðja riðli en þar eru Portúgal, Svíþjóð, Spánn, Brasilía og Noregur öll enn í baráttunni.