Þóra Sólveig Bergsteinsdóttir er fædd 24. janúar 1975 á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.
„Ég ólst upp á Leifsstöðum í Eyjafjarðarsveit í fallegri náttúrunni sem hefur haft djúpstæð áhrif á mig og allt sem ég tek mér fyrir hendur. Ég nýt þess að vera í sveit og dvaldi í Breiðamýri í sveit hjá föðursystur minni nokkur sumur, og á Siglufirði hjá móðurömmu og afa.“
Solla, eins og hún er ávallt kölluð, var í skóla á Laugalandi og eitt ár á heimavist í Hrafnagilsskóla áður en fjölskyldan flutti til Keflavíkur eftir fermingu. Hún lauk grunnskólaprófi í Holtaskóla og fór svo í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og útskrifaðist sem stúdent á félags- og sálfræðibraut árið 1995. Hún fór í undirbúningsnám í myndlist í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og útskrifaðist með BA-gráðu í myndlist í Listaháskóla Íslands vorið 2004. Hún var skiptinemi í myndlist í
...