Foreldrar þriggja ára stúlku sem veiktist alvarlega af E. coli-sýkingu á leikskólanum Mánagarði í október krefjast rannsóknar lögreglu fyrir hönd dóttur sinnar vegna þess líkamstjóns sem hún varð fyrir út af sýkingunni.
Kæra foreldrarnir Félagsstofnun stúdenta, sem er rekstraraðili leikskólans, jafnframt vegna brots starfsmanna leikskólans fyrir að hafa ekki gætt að réttri aðferð við framleiðslu, geymslu og dreifingu matvæla á leikskólanum. Fjallað var um mál stúlkunnar, Matthildar Gísladóttur, í Kveik á RÚV í vikunni. Hún var meðal þeirra 45 barna af leikskólanum sem leituðu til bráðamóttöku eftir að þau fundu fyrir einkennum af E. coli eftir að hafa neytt kjöthakks á leikskólanum.
Í umfjöllun Kveiks um málið
kom fram að FS hefði viðurkennt mistök og að tryggingafélag félagsins hefði viðurkennt bótaskyldu í málinu.