Kvikmyndin Snerting eftir Baltasar Kormák var frumsýnd í Japan fyrir helgina, en eins og við þekkjum var hún að hluta til tekin upp þar um slóðir, auk þess sem japanskar persónur koma mjög svo við sögu og vísað er í afleiðingar kjarnorkusprengjunnar í Hiroshima 1945. Bandaríski vefmiðillinn Deadline fjallaði á dögunum um Snertingu, en myndin var forsýnd á kvikmyndahátíðinni í Hiroshima í nóvember. Meðal gesta við það tækifæri var hin 87 ára Keiko Ogura, sem upplifði á eigin skinni þá mismunun sem fólk sem lifði af hildarleikinn í Hiroshima 1945 mátti þola áratugum saman. Ogura er það sem Japanir kalla Hibakusha og hefur helgað líf sitt því að halda sögum þessa fólks á lofti. Önnur Hibakusha lýsti reynslu sinni eftir forsýninguna í Hiroshima, en fjölskylda eiginmanns hennar var mjög andvíg ráðahagnum og hann sjálfur var mótfallinn því að þau eignuðust börn.