Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að Hvammsvirkjun muni verða að veruleika, jafnvel þótt héraðsdómur hafi fellt úr gildi virkjunarleyfi sem Orkustofnun hafði veitt fyrirtækinu. Segir hann ríkan vilja hjá yfirvöldum til þess að þessi framkvæmd komist á koppinn, enda séu gríðarlegir hagsmunir undir.
Hörður er gestur Spursmála að þessu sinni og upplýsir þar að tekjur af virkjuninni, þegar hún verði komin í gagnið, geti numið um 7 til 8 milljörðum króna á ári. Það sé þó aðeins brotabrot af þeim hagsmunum sem séu undir, því að orkunni sem virkjunin geti framleitt verði fleytt til verkefna. Þau verði hins vegar ekki að veruleika fyrr en virkjunin sé komin á koppinn og því séu áframhaldandi tafir á framkvæmdum til mikils skaða fyrir þjóðarbúið.