Rannsóknarnefnd samgönguslysa (RNSA) hefur lokið rannsókn á banaslysi þar sem fólksbifreið og tvær vörubifreiðar rákust saman á Vesturlandsvegi við Hvalfjarðarveg 16. janúar 2024. Ökumaður í fólksbifreiðinni, sjötugur karlmaður, lést í slysinu og farþegi sömu bifreiðar slasaðist illa.
Fram kemur í skýrslunni að fólksbifreiðinni hafi verið ekið suður Vesturlandsveg við Hvalfjarðarveg norðan Hvalfjarðar. Á sama tíma hafi tveimur vörubifreiðum verið ekið úr gagnstæðri átt norður Vesturlandsveg. Í mjúkri beygju var fólksbílnum ekið yfir á vinstri vegarhelming og utan í hlið fremri vörubifreiðarinnar og eftirvagns hennar. Í framhaldi lenti bíllinn framan á vinstra horni aftari vörubifreiðar með fyrrgreindum afleiðingum.
Í skýrslu RNSA segir að ökumaður fólksbílsins hafi misst stjórn við erfið veðurskilyrði.