„Fyrst og fremst þá vorum við ekki nægilega góðir,“ sagði landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson í samtali við Morgunblaðið eftir tapið örlagaríka gegn Króatíu í gærkvöldi.
„Við gáfum færi á okkur sem þeir nýttu sér vel. Við náðum ekki upp sömu frammistöðu og í síðustu tveimur leikjum. Við gerum of mörg tæknileg mistök líka og svo förum við illa með dauðafærin. Það er mjög dýrt í svona leik. Takturinn var allan tímann með þeim en ekki okkur og okkur tókst aldrei að gera þeim erfitt fyrir og setja almennilega pressu á þá.
Það vantaði ekkert upp á ákefðina og baráttuna hjá mínum mönnum. Þeir lögðu sig fram allan tímann og það var barátta í liðinu en stundum dugar það ekki til. Stundum hittir þú á það og stundum ekki og þetta var ekki okkar besti leikur,“
...