Samvinna Sterling K. Brown, sem lék Randall í This Is Us, og Dan Fogelman, höfundur myndaflokksins vinsæla, sameina krafta sína á ný í flunkunýrri seríu, Paradise, sem nálgast má á efnisveitunum Hulu og Disney+ frá og með næsta þriðjudegi. Að sögn aðstandenda gætu myndaflokkarnir tveir þó víst varla verið ólíkari. Paradise hverfist um spennu en Brown leikur leyniþjónustumanninn Xavier Collins, bráðsnjallan mann sem í eina tíð hafði það hlutverk að vernda forseta Bandaríkjanna. Það var þá en hann lifir allt öðru lífi í dag. Það er sumsé flakkað fram og til baka í tíma, rétt eins og í This Is Us, og þið getið búið ykkur undir óvæntan snúning í hverjum þætti.