Nú eru liðnir 4-5 dagar frá því að Donald Trump var settur inn í embætti sem 47. forseti Bandaríkjanna með pompi og prakt. Bréfritari þykist vita hverju „pomp og prakt“ lýsa, en það þarf að gæta sín, því að viðbættu „a“ er „pomp-a“ ekki langt undan og þá verður minna um „prakt.“ Viðkomandi sló þessu um sig aðallega af tilgerð. Þegar Trump vann fyrstu (og síðustu) kappræðurnar við Biden forseta varð stuðningsmönnum hins síðarnefnda mjög brugðið. Reyndar fékk Trump ekki ráðrúm til að „vinna“ þessar kappræður. Það varð fljótlega augljóst að Joe Biden var ekki í góðu formi. Þeim sem lýstu í útsendingu í fjölmiðlum varð fljótlega ljóst að Biden „gengi ekki á öllum“. Mjög snemma spurðu spyrjendur forsetann um efni sem ekki var snúið að svara. Biden byrjaði á svari og fljótlega sást að ekki var allt í lagi. Spyrjendur spurðu þá Trump um „sama álitaefni“.
...