Ingibergur Óskarsson rafvirki var heiðraður sérstaklega á samkomu í Eldheimum í Vestmannaeyjum á fimmtudagskvöld, en Ingibergur hefur undanfarinn rúman áratug safnað saman upplýsingum um alla þá sem sem flúðu frá Vestmannaeyjum nóttina sem eldgos hófst í Heimaey fyrir 52 árum.
Jafnframt var opnuð sérstök vefsíða á vefnum heimaslod.is með þeim upplýsingum sem Ingibergur hefur safnað saman. Þar kemur fram að fólkið fór frá Eyjum með 58 bátum og skipum og í flugvélum.
Fyrsti báturinn lagði af stað með fólk um hálfþrjú um nóttina, aðeins um hálftíma eftir að gosið hófst 23. janúar 1973. Á vefsíðunni segir að sjóferðin hafi ekki verið auðveld; þungur sjór eftir fárviðri liðins dægurs gerði ferðina erfiða, en þrátt fyrir það tókst að flytja rúmlega 5.000 manns til Þorlákshafnar.