Svanur Hvítaness Halldórsson fæddist 1. mars 1935. Hann lést 18. desember 2024.
Útför Svans fór fram 15. janúar 2025.
Genginn er góður vinur, Svanur Halldórsson leigubílstjóri. Við Svanur kynntumst þegar ég var á þrítugsaldri og móðir mín var að byggja á Álfhólsveginum í Kópavogi og hann á Melaheiðinni. Hann kom með þrjá glæsilega gæðinga til reiðar að hitta Hilmar vin sinn sem þá var nýfluttur í næsta hús við móður mína. Seinna þegar ég svo byrjaði í hestamennskunni eftir fertugt, þá valdi hann fyrir mig góða hryssu, sem ég notaði til undaneldis og reyndist vel. Þegar ég tók á hús í fyrsta sinn þá var það hjá Svani í nýja og flotta hesthúsinu hans í Faxaholti 1 í Glaðheimum, sem nú er horfið. Hjá honum og syni hans Vilhjálmi lærði ég öll helstu undirstöðuatriði hestamennskunnar, að hirða og fara vel með hestana ásamt snyrtilegri umgengni
...