„Vissulega er þörf á því að endurskoða ákveðna þætti í launamálum íþróttamanna, svo sem hlunnindi og annað sem telst til tekna,“ segir Kristinn Jónasson, lögmaður hjá KPMG. Mikil umræða hefur skapast um þau skilaboð Skattsins til íþróttafélaga að nú þurfi að setja þau á staðgreiðsluskrá vegna launa leikmanna og þjálfara.
Þegar allt er borið saman, segir Kristinn, væru útgjöld íþróttafélaga svipuð þó leikmenn væru teknir inn sem launþegar og fengju laun samkvæmt því. Hins vegar sé starfssamband þeirra sem í íþróttum starfa og félaga viðkomandi allt öðruvísi en gerist í öðrum greinum. Oft sé lítið annað í stöðunni, allra vegna, en að þjálfari eða leikmenn hverfi strax frá félagi þegar árangur sé ekki sá sem vænst sé. Sá sem víki sé þá laus mála og geti horfið til annarra verka, í stað þess að vera nánast eign síns gamla félags vegna launþegasambands vinnuréttar.
...