Það er óneitanlega töluverð fyrirferð á Donald Trump forseta um þessar mundir. Og þótt margur ráðamaður og víða frá fordæmi ákvarðanir hans og „tiltæki“ þá virðast forystumenn í ýmsum löndum láta furðu fljótt undan, þegar „hörð mótmæli“ þeirra hafa næsta lítið að segja. Heimurinn þekkir sögu núverandi forseta Bandaríkjanna betur en áður var. Þegar hann boðar margvísleg efnahagsleg óþægindi við „gömul vinaríki“ er ekki að vita hve mikið hangir þar raunverulega á þeirri spýtu, og það sést ekki fyrr en allt spilið verður um garð gengið og að lokum gert upp. Það vantar ekkert upp á dugnað hins nýja forseta, nr. 47 (og hins gamla númer 45). Hann er vinnuþjarkur hinn mesti, og hefur ánægju af mátulegum átökum, en þegar pólitísk saga hans er skoðuð kemur á daginn að hann dvelur ekki endilega mjög lengi við þau mál, sem hann hafði gert mestan hávaða úr. En þótt forsetinn sveiflist þannig á milli stórmálanna dvelur
...