Kaupahéðinn í kauphöllinni í New York fylgist hér með þróun markaðanna með ábúðarfullum svip, en Dow Jones-, NASDAQ- og S&P 500-vísitölurnar lækkuðu allar nokkuð þegar markaðir voru opnaðir vestanhafs í gær. Réttu þeir þó úr kútnum eftir því sem leið á daginn.
Var svipaða sögu að segja á mörkuðum í Evrópu og Asíu, en lækkunin var m.a. rakin til yfirlýsinga Trumps Bandaríkjaforseta um aukna tolla á vörur frá Kanada, Mexíkó og Kína.
Claudia Sheinbaum Mexíkóforseti greindi frá því síðar um daginn að Mexíkó myndi senda 10.000 hermenn til landamæranna til að auka eftirlit með þeim, og Bandaríkin myndu á móti herða eftirlit með ólöglegu vopnasmygli til Mexíkó. Ákvað Trump að fresta gildistöku tolla á Mexíkó um einn mánuð vegna þessa.