Samþykkt var í borgarráði Reykjavíkur 27. janúar síðastliðinn að heimila Leigufélagi aldraðra að selja íbúðir til Brákar íbúðafélags. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur allt síðasta ár unnið að því að aðstoða Leigufélag aldraðra vegna fjárhagsvanda félagsins. Niðurstaða þeirrar vinnu er að selja Brák allar íbúðir í eigu félagsins, alls 49 íbúðir við Vatnsholt 1 og 3 í Reykjavík og 31 íbúð að Dalbraut 6 á Akranesi.
Reykjavíkurborg setti það skilyrði að íbúðirnar yrðu vistaðar í sérdeild hjá Brák og leigðar eingöngu tekju- og eignalitlum eldri borgurum í Reykjavík. Samkvæmt lögum er óheimilt að selja slíkar íbúðir nema með leyfi HMS og viðkomandi sveitarfélags. HMS hefur samþykkt söluna enda sé ekki rekstrargrundvöllur fyrir íbúðunum innan Leigufélags aldraðra.
Brák var stofnað 2022 af 31 sveitarfélagi utan höfuðborgarsvæðisins og síðan þá hafa tvö
...