Okkar ylhýra móðurmál á í vök að verjast og flæða yfir nýyrði og erlendar ambögur af sífellt meiri þunga. Okkur hefur hins vegar á stundum tekist vel að innleiða nýyrði í málið, sem þjóðin hefur tileinkað sér.
Má þar nefna orðin sími, tölva, þota, skjár, sjónvarp, gervigreind, útvarp, samfélagsmiðlar og mörg önnur. Hví ekki að halda því til streitu?
Mörg orð af erlendum uppruna fara illa saman við íslenska tungu og má þar nefna orð eins og „facebook“, sem er skylt orðinu fés og úr fési kemur gjarnan fjas. Sting ég því upp á að nota orðið fjas í staðinn, sem er bæði sagnorð og nafnorð yfir léttvæg samtöl. Væri þá hægt að segja „ég sá það á fjasinu“ eða „hvað varstu að fjasa?“ Eins má nota orð eins og hrós, lof eða líkar þetta í stað skrumstælingarinnar „læk“. Vel hefur tekist til með
...