Jazzklúbburinn Múlinn hefur vordagskrá sína með spennandi tónleikum í kvöld kl. 20 á Björtuloftum Hörpu, að því er segir í tilkynningu. Þar segir jafnframt að á tónleikunum komi fram Sextett Eiríks Rafns ásamt Marínu Ósk og að sextettinn sé samstarf trompetleikarans og útsetjarans Eiríks Rafns Stefánssonar og söngkonunnar og lagasmiðsins Marínu Óskar.
„Sextettinn mun leika ný og eldri lög Marínu í nýlegum útsetningum Eiríks Rafns ásamt uppáhaldsstandördum þeirra, útsettum sérstaklega fyrir samstarfið. Gestir mega búast við bjartri sveiflu, tilfinningaríkum ballöðum og öllu þar á milli. Ásamt þeim koma fram Björgvin Ragnar Hjálmarsson á saxófón, Stefán Ómar Jakobsson sem leikur á básúnu, píanóleikarinn Vignir Þór Stefánsson, bassaleikarinn Jón Rafnsson og Scott McLemore sem leikur á trommur.“ Vordagskrá Múlans verður á miðvikudagskvöldum fram í miðjan maí.