— Morgunblaðið/Árni Sæberg

Ófögur sjón blasti við ljósmyndara í Fornahvarfi í Kópavogi þar sem hraðahindranir lágu brotnar og a.m.k. á tveimur stöðum sáust stórir skrúfboltar standa upp úr götunni þar sem hraðahindranir höfðu verið boltaðar niður.

„Það bárust ábendingar um að hraðahindranir hefðu losnað um helgina en þá var snjór yfir og skrúfboltar sáust illa. Á mánudaginn var leitast við að hreinsa til, fjarlægja skrúfurnar og lauk því verki í gær,“ segir Sigríður Björg Tómasdóttir almannatengill Kópavogsbæjar spurð hvort ekki sé slysahætta af skrúfboltunum. Sigríður bætir því við að göturnar séu með 30 km hámarkshraða og að skrúfboltarnir ættu ekki að hafa valdið tjóni ef ekið er á löglegum hraða. Hraðahindranirnar voru lagðar í fyrra að beiðni íbúa hverfisins en þær stóðust ekki ágang öflugra snjóruðningstækja bæjarins fyrsta veturinn.