![](/myndir/gagnasafn/2025/02/06/1da474ee-4cd5-4ad1-95f5-a6768839c34f.jpg)
Landsmenn fengu ágætan fyrirvara áður en versta óveðrið skall á síðdegis í gær og höfðu þannig tíma til þess að huga að lausamunum. Við Reykjavíkurhöfn var bátum komið í var. Rauð veðurviðvörun tók gildi klukkan 16 í gær og hafði þá verið lýst yfir hættustigi vegna veðurs. Rauð viðvörun er í gildi fram yfir hádegi í dag og hvetur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fólk til að halda sig heima á meðan óveðrið gengur yfir.
Viðbragðsaðilar sinntu fjölda verkefna á höfuðborgarsvæðinu í gær og sneru verkefnin einna helst að lausamunum sem höfðu fokið og vatnstjóni. Voru viðbragðsaðilar m.a. kallaðir til vegna fellihýsis sem fauk á bíl í Árbæ.
Röskun verður á skólastarfi á höfuðborgarsvæðinu í dag, grunn- og leikskólar verða þó ekki lokaðir en halda úti lágmarksmönnun og verður að tilkynna skólastjórnendum um komu barns.