![Stopp Richard Brautigan ásamt Michaelu Le Grand sem hann lýsti sem músu sinni. Myndin birtist á forsíðu nóvellunnar Silungsveiði í Ameríku sem hann kláraði 1961 en kom út 1967.](/myndir/gagnasafn/2025/02/06/98ef12f6-9507-4241-92e9-47a3fe754d71.jpg)
Bækur
Einar Falur
Ingólfsson
Eftir að hafa lesið sögur Brautigans næstum allar á undanförnum áratugum, og sumar nokkrum sinnum, þá náði ég nú loksins að húkka far með hraðlestinni, þessari bók sem margir hafa haldið upp á út um löndin, en var lengi samt svo erfitt að hafa uppi á þegar höfundurinn var dottinn úr tísku. Hann fyrirfór sér tæplega fimmtugur 1984 og þá þegar var hætt að endurútgefa bækur hans sem höfðu verið vinsælar en urðu vandfundnar, jafnvel í heimalandi höfundarins, Bandaríkjunum. Þegar ég var búsettur vestra um áratug eftir að Richard Brautigan lést, þá þræddi ég fornbókaverslanir og tókst á löngum tíma að eignast næstum allar prósabækur skáldsins og naut þess að lesa – var sannkallaður aðdáandi, nema ég náði aldrei að komast með hraðlestinni, hún var alltaf nýhorfin út
...