![](/myndir/gagnasafn/2025/02/07/1cb596-netm1.jpg)
Kristinn Lund fæddist í Nýhöfn á Melrakkasléttu 11. apríl 1948. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu 27. janúar 2025.
Foreldrar hans voru Árni Pétur Lund, bóndi í Miðtúni, f. 1919, d. 2002, og Helga Sigríður Kristinsdóttir, húsmóðir í Miðtúni, f. 1921, d. 2007. Bræður Kristins eru Maríus Jóhann Lund, f. 1946, Níels Árni Lund, f. 1950, Benedikt Lund, f. 1952, Sveinbjörn Lund, f. 1955, og Grímur Þór Lund, f. 1961. Samfeðra Kristni var Árni Pétursson, f. 1938, d. 2013.
Kristinn giftist eiginkonu sinni, Guðnýju Kristínu Guttormsdóttur, f. 18. júní 1952 í Marteinstungu, 28. janúar 1973. Foreldrar hennar voru Guttormur Ármann Gunnarsson, f. 1913, d. 2009, og Elke Gunnarsson, f. 1931, d. 2024.
Börn þeirra eru fjögur: 1) Ármann Einar Lund, f. 1972, giftur Sigríði Láru Guðmundsdóttur, f. 1975. Börn þeirra eru Óskar Gauti, Hekla Kristín og Snorri Sveinn. 2) Helga Kristinsdóttir Lund, f. 1975, gift Tómasi Inga Tómassyni, f. 1969. Börn þeirra eru Ruth, Andreas Alex og Lúkas Leó. 3) Auðunn Guðni Lund, f. 1989. 4) Guðrún Lund, f. 1992, gift Max Hopkins, f. 1994.
Kristinn hóf skólagöngu í Núpasveitarskóla 1956 en 14 ára gamall fluttist hann til Reykjavíkur og gekk í Vogaskóla þar sem hann lauk landsprófi. Hann gekk í Menntaskólann á Akureyri og lauk námi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Samhliða námi hóf hann störf hjá Sjávarafurðadeild SÍS og vann þar alla sína starfsævi þótt nafn og rekstrarform fyrirtækisins tæki nokkrum breytingum. Hann starfaði meðal annars sem framkvæmdastjóri fjármála um árabil.
Útför Kristins verður gerð frá Seljakirkju í dag, 7. febrúar 2025, klukkan 13.
Steymt er frá útför.
Pabbi ólst upp í Miðtúni á Melrakkasléttu með foreldrum sínum og bræðrum. Þaðan átti hann margar ljúfar minningar. Þegar hann hóf háskólanám í Reykjavík hófst nýr og fallegur kafli í lífi hans þegar hann kynntist henni mömmu.
Mamma og pabbi voru samstíga í gegnum lífið og miklir vinir. Samband þeirra var einstakt, og þau höfðu verið saman í 53 ár. Þau byggðu sér heimili í Kleifarseli 53, þar sem pabbi stýrði allri framkvæmdinni sjálfur, enda hafði hann alltaf mikinn áhuga á skipulagi og húsbyggingum. Þar ólumst við systkinin upp við mikið frelsi og nutum þess að vera við sjálf.
Við eigum svo ótal margar minningar um samverustundir í Kleifarselinu, veislur og stórar stundir en líka hversdagslegu augnablikin með pabba, eins og að týna rifsber í garðinum, undirbúa tjaldferðir eða njóta kvöldkaffis saman í eldhúsinu.
Pabbi var alinn upp í sveit og hann var alltaf sveitastrákur í hjarta sínu. Hann sagði sjálfur að hann hefði verið svo heppinn, ekki aðeins að hafa fundið dásamlegustu konu í heimi, heldur fylgdi með sú uppbót að hún var einnig sveitastúlka.
Þegar við vorum krakkar fórum við oft í Marteinstungu í Holtum, bæinn sem mamma er frá. Pabbi vann ófá handtökin þar hvort sem það var að byggja nýtt hús við gamla húsið, heyja, slátra, setja niður kartöflur eða taka þátt í réttum. Pabbi var ótrúlega handlaginn, og fyrir okkur börnin hans var það mikil gjöf og forréttindi að fá að læra af honum og upplifa allt sem sveitalífið hafði upp á að bjóða með honum. Hann var alger þúsundþjalasmiður, var með ómælda búskaparþekkingu og einstaklega lausnamiðaður.
Pabbi tilheyrði kynslóð sem kunni að fara vel með hlutina hann var nýtinn og trúði því að engu skyldi farga að óþörfu. Alltaf var hægt að finna lausn, hvort sem það var að gera við veiðafærin eða ryksuguna ef hún hætti að virka. Hann var sífellt með verkefni í gangi og féll aldrei verk úr hendi.
Hann gaf okkur alltaf tíma, sýndi áhuga og hlustaði af einlægni. Hann hvatti okkur áfram, til að vaða í málin og vera áræðin. Hann var glaðlyndur, jákvæður og þolinmóður. Fyrir okkur systkinin var hann ofurhetja, hann gat allt. Hann hjálpaði við heimanám og verkefni, sló upp milliveggjum, tengdi rafmagn, múraði, flísalagði, passaði barnabörnin og sinnti heimilisstörfum með mömmu. Hann var alltaf til staðar og tilbúinn að rétta hjálparhönd, enda leituðu margir til hans með hin ýmsu verkefni. Að segja nei var einfaldlega ekki til í hans orðabók.
Þegar barnabörnin voru lítil kölluðu þau hann afa ís en hann átti alltaf margar tegundir af ís í stóru frystikistunni sinni sem var afar vinsælt. Hann lét sig aldrei muna um að verða við óskum barnabarna sinna og þreyttist aldrei á að sinna þeim af alúð og hlýju.
Pabbi var mælskur og mikill sögumaður, hafði gaman af því að fræða okkur um allt frá himni til jarðar. Hann sagði sögur úr sveitinni sinni, af ættinni okkar, og hann fylgdist vel með fréttum og atburðum í þjóðfélaginu. Hann hafði áhuga á sjórnmálum og sérstaklega á kosningakerfi landsins.
Við fórum í margar minnistæðar ferðir saman, bæði innanlands og utan. Pabbi naut íslenskrar náttúru og þekkti landið vel, enda voru þau mamma dugleg að flakka um með tjaldið og síðar tjaldvagninn. Hann undi sér líka svo vel í sumarbústaðnum í Skorradal sem þau mamma keyptu árið 1997 og héldu alltaf í toppstandi. Þar nutum við margra samverustunda sigldum á báti, tíndum ber, og busluðum í heita pottinum Eitt sinn setti mamma kerti í luktir og þau héldu í ævintýraferð með barnabörnin í myrkrinu. Pabbi hélt líka alltaf góðum tengslum við bræður sína og Melrakkasléttuna, fór með okkur á sjó þar, kenndi okkur að týna fjallagrös og að þekkja örnefnin. Þá eru þær óteljandi utanlandsferðirnar sem voru farnar, bæði fjölskyldan en líka þau tvö, mamma og hann, að skoða heiminn, framandi slóðir og fjarlæg lönd.
Elsku pabbi, takk fyrir allar samverustundirnar og öll góðu ráðin. Takk fyrir að kenna okkur að vera dugleg og takast á við þau verkefni sem okkur eru falin. Þú varst sannarlega mikill fjölskyldumaður, og við fundum það vel hversu mikið þú elskaðir okkur það var alltaf sýnilegt og þú sagðir okkur það oft.
Minningarnar um hlýju þína, styrk og kærleika munum við varðveita vel.
Ármann, Helga, Auðunn og Guðrún